Hernaður gegn kristnum ríkjum Evrópu
11.9.2018 | 23:28
fer fram á mörgum vígstöðvum. Á bak við hana standa úlfar í sauðargæru hugsjónamennsku. Þeir boða frelsi meðan þeir hafa nokkuð tanna milli. Þeir vilja -frelsa umhverfið og lofthjúpin frá mengun og hita -frelsa konur frá barneignum og barnauppeldi, -frelsa leikskólabörn frá gagnkynhneigð, -frelsa fólk til ferðalaga milli ríkja án vegabréfa -frelsa pyngju fólks frá því að greiða fyrir innlendar vörur, -frelsa fólk til að kaupa vínföng út á næsta horni, -frelsa fólk til að kaupa eiturlyf vandræðalaust, -frelsa milljónir útlendinga frá því að dveljast stundinni lengur í vanþróuðum löndum, -frelsa mannsfóstur frá því að fæðast og frelsa gamalt og veikt fólk frá því að lifa. Þá er hugsjónamönnunum að sjálfsögðu mikils virði -frelsið til að afnema kristna siði og kristna kennslu í menntun barna og innleiða fjölmenningu (sem í raun þýðir Islamvæðingu) og að lokum er ómissandi frelsið til að þagga fljótt og vel niður í öllum þeim sem voga sér að gagnrýna "frelsis"stefnu þeirra.
Frelsis postulunum er ekki síst mikilvægt að frelsa atvinnulíf kristinna Evrópuþjóða frá sjálfstæði og hagvexti. Það er framkvæmt með heilum þjóðarbókhlöðum af íþyngjandi reglugerðum um persónuvernd, kynjakvóta, jafnlaunavottun, kolefnisjöfnun, útblásturskvótun, orkupökkum, o.s.frv. Margir háttsettir í loftlagsbransanum hafa fullyrt að loftslagsmálin snúist ekki um loftslag heldur efnahagsmál. Markmiðið sé að hefta hagvöxt í hinum Vestræna heimi og gefa vanþróuðum löndum forskot. Andi villunnar er við stjórn og kristin og sjálfstæð þjóðríki Evrópu gjalda dýru verði. Þau skulu troðin niður og lögð undir guðlaust heimsveldi.
Boðorð Guðs er Verið frjósöm og uppfyllið jörðina. En stór hluti af baráttumálum frjálslyndra og pólitískt rétttrúaðra snýst ómeðvitað um að minnka frjósemi Evrópubúa ásamt með því að eyðileggja þær kynslóðir sem þó fá að fæðast. öfgafemínisminn er hluti af þessari "frelsis" hreyfingu. Þar er hamrað stöðugt á útrýmingu kynbundins launamunar, sem þýðir í raun að allar konur eigi að taka fullan þátt í atvinnulífinu algerlega til jafns við karla. Þar sem meðganga, barneignir og uppeldi ungbarna er tímafrekt og mjög krefjandi verkefni er fórnarkostnaður barneigna kvenna atvinnuþátttaka og þar með laun kvenna. Því er útilokað að útrýma kynbundnum launamun í Evrópu án þess að minnka eða útrýma frjósemi Evrópskra kvenna, þ.e. með færri eða engum barneignum Evrópskra kvenna. Baráttu femínista miðar enda vel. Fólksfjöldaþróun í álfunni er enda löngu hætt að vera sjálfbær, heldur fækkar innfæddum og þjóðirnar eldast hratt. Því þarf að flytja inn erlent vinnuafl til þess að standa undir efnahagnum. Þá er hendi næst að sækja mjög frjósaman lýð sem siglir undir tunglfána, stundar ekki fósturdráp og viðhefur engar tálmanir á frjósemi heldur þvert á móti.
Ef frelsispostulunum tekst ekki að tálma frjósemi Evrópubúa algerlega t.d. með fósturdrápi, pillu, hærri lögræðis og giftingaraldri, sílengdri skólagöngu, húsnæðisskortsstefnu, opinberum áróðri fyrir ófrjósömum lífsstíl, o.s.frv. vilja frelsispostularnir sjá til þess að enginn móðir verði til staðar á heimilinu fyrstu og mikilvægustu ár ungviðisins hvað þroskavænleika varðar. Mikil nánd við móður (eða einhverja eina trausta og elskandi persónu) fyrstu þrjú árin eru talin afgerandi hvað þroskavænleika varðar. En stefnan er að enginn verði til að ala önn fyrir þeim vesalingum sem þó fá að fæðast, heldur skuli móðirin strax út á vinnumarkað (því annars eykst hinn stórháskalegi kynbundni launamunur). Stofnanir hins opinbera skulu svo sjá um uppeldið frá fyrstu tíð. Með því móti verða til kynslóðir taugaveiklaðra, þunglyndra og andfélagslegra ungmenna sem mynda langar biðraðir á geðdeildir, fangelsi og afvötnunardeildir. Því telja guðlausu "frelsis" hugsjónamennirnir að líkindum nauðsyn að lögleiða eiturlyf, óheftan aðgang að áfengi á næsta götuhorni og líknardráp til að klára verkið sem misfórst að klára í móðurkviði á þeirri kynslóð.